13.10.20
Nýtt fræðsluefni um betri vinnutíma í vaktavinnu!
Birting fræðsluefnis vegna betri vinnutíma í vaktavinnu er hafin hér á vefnum. Gert er ráð fyrir því að fræðsluefnið verði fjölbreytt bæði að efni og formi. Ýmis myndbönd munu birtast, bæði teiknimyndir, viðtöl við fólk, og glærukynningar sem lesið er inn á. Þá er gert ráð fyrir að skipulögð verði námskeið, bæði á vef og hefðbundin staðnámskeið, fyrir einstaka hópa.
Ávinningur betri vinnutíma í vaktavinnu
Í meðfylgjandi myndbandi eru allar nánari upplýsingar um ávinning betri vinnutíma fyrir starfsfólk í vaktavinnu og þau tækifæri sem felast í kerfisbreytingunni. Eftir breytingarnar verður meðal annars auðveldara fyrir vaktavinnufólk að samþætta vinnu og einkalíf og eiga meiri tíma með fjölskyldu, eða sinna áhugamálum sínum. Þá standa vonir til þess að styttri vinnutími dragi úr streitu og þar með hættu á ýmsum sjúkdómum sem leiðir til betri heilsu. Breytingarnar eiga einnig að leiða til meiri fyrirsjáanleika og stöðugleika í mönnun, sem hefur margvíslega kosti í för með sér bæði fyrir starfsfólk og stjórnendur. Þá er farið yfir jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og á heimilinu.
Markmið og leiðarljós betri vinnutíma í vaktavinnu
Einnig hefur verið birt myndband þar sem farið er yfir helstu markmið og leiðarljós betri vinnutíma í vaktavinnu. Í grunninn eru þrjú stór markmið, bætt heilsa starfsfólk, aukið öryggi starfsfólks og þjónustuþega og betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Inn í þetta fléttast svo önnur markmið, eins og bætt þjónusta í opinberri þjónustu, betra starfsumhverfi og starfsandi og betri nýting fjármuna.
Þessar tvær kynningar eru einungis þær fyrstu. Starfsfólk og stjórnendur eru hvött til að fylgjast vel með vefnum og kynna sér nýtt fræðsluefni sem mun halda áfram að birtast á næstu dögum og vikum.