Vaktavinna

Helstu breytingar á vaktavinnu

Samkomulag um útfærslu vinnutíma vaktavinnufólks

Betri vinnutími í vaktavinnu er samstarfsverkefni allra opinberra launagreiðenda, það er ríkis, Reykjavíkurborgar og sveitarfélaga annars vegar og ASÍ, BHM, BSRB og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hins vegar. Stýrihópur verkefnisins er skipaður einum fulltrúa frá öllum samningsaðilum og í umboði hans starfar verkefnastjórn sem hefur meðal annars það hlutverk að stuðla að snurðulausri innleiðingu breytinganna fyrir alla. Starfandi eru fjölmargir undirhópar sem allir hafa sitt hlutverk, en þeir eru; matshópur, tæknihópur, þrír innleiðingarhópar og fræðsluhópur. Fundarstjórn verkefnisins er í höndum ríkissáttasemjara.

Breytingar verða gerðar á vinnufyrirkomulagi og launamyndunarkerfi í vaktavinnu til að bæta starfsumhverfi starfsfólks og stjórnenda og mæta þannig ákalli um betra skipulag vinnutíma.

Markmið kerfisbreytinganna er að stuðla að betri heilsu og öryggi starfsfólks og auka möguleika þess til að samþætta betur vinnu og einkalíf þannig að störf í vaktavinnu verði eftirsóknarverðari. Breytingunum er einnig ætlað að auka stöðugleika í mönnun, draga úr yfirvinnu ásamt því að bæta öryggi og þjónustu við almenning. 

Betri vinnutími í vaktavinnu, ávinningur og tækifæri fyrir starfsfólk og stjórnendur (Myndband)

Helstu breytingar

Helstu breytingarnar eru að vinnuvikan styttist og launamyndun vaktavinnufólks tekur mið af fleiri þáttum en áður.

Vinnuvikan styttist að lágmarki úr 40 í 36 virkar vinnustundir. Viðbótarstytting í allt að 32 virkar vinnustundir er möguleg og grundvallast á mismunandi vægi vinnustunda. Í nýju launamyndunarkerfi fjölgar vaktaálagsflokkum og greiddur er sérstakur vaktahvati sem tekur mið af fjölbreytileika og fjölda vakta.

Breytingarnar eru til þess fallnar að auka möguleika vaktavinnufólks til að vinna hærra starfshlutfall en áður og hækka þannig tekjur sínar.

Breytingarnar taka gildi 1. maí 2021.

Betri vinnutími fyrir vaktavinnufólk (Myndband)

Markmið og leiðarljós

Markmið breytinganna er að bæta starfsumhverfi og launamyndun vaktavinnufólks með það að leiðarljósi að:

 • auka öryggi starfsfólks og skjólstæðinga
 • vaktavinna verði eftirsóknarverðari
 • bæta samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs
 • vinnutími og laun taki betur mið af vaktabyrði og verðmæti staðins tíma
 • bæta andlega, líkamlega og félagslega heilsu starfsfólks
 • bæta starfsumhverfi
 • stytta vinnutíma
 • auka stöðugleika í mönnun
 • gera launamyndunarkerfi einfaldara og gagnsærra
 • draga úr þörf og hvata til yfirvinnu
 • auka hagkvæmni í nýtingu fjármuna
 • bæta gæði opinberrar þjónustu

Markmið og leiðarljós (Myndband)

Ávinningur betri vinnutíma í vaktavinnu fyrir starfsfólk (Myndband)

Ávinningur betri vinnutíma í vaktavinnu (.pptx)

Vægi vinnuskyldustunda

Vinnuskyldustundir vaktavinnufólks utan dagvinnumarka samkvæmt skipulagðri vaktskrá og innan vinnuskyldu hafa ólíkt vægi við útreikning vinnuskila. Þannig hafa vaktir sem unnar eru á kvöldin virka daga og á morgun og kvöldvöktum um helgar stuðulinn 1,05 og næturvaktir stuðulinn 1,2. Stuðullinn 1,05 þýðir að fyrir hverja klukkustund sem unnin er reiknast 63 mínútur í vinnuskil en 72 minútur fyrir unna klukkustund með stuðulinn 1,2. 

Vinnuskil vaktavinnufólks í fullu starfi geta farið í allt að 32 vinnustundir að jafnaði.

Vægi vinnuskyldustunda og vaktaálag (Myndband)

Vaktaálag

Vaktaálagsflokkum fjölgar þannig að vaktaálag á næturvöktum hækkar úr 55% álagi í 65% álag virka daga og 75% um helgar. 

Aðfangadagskvöld, jólanótt, gamlárskvöld og nýársnótt fá álagið 120% í stað 90% álags áður. Vaktaálag hækkar á grundvelli jafnvægis vinnu og einkalífs. 

 

 

Vægi vinnuskyldustunda og vaktaálag (Myndband)

Jöfnun vinnuskila

Árleg vinnuskylda vaktavinnufólks sem vinnur á reglubundnum vöktum skal að jafnaði vera sú sama og hjá dagvinnufólki. Jöfnun vinnuskila kemur í stað helgidagafrís og bætingar.

 

Með öðrum orðum verður vinnuskylda sú sama hjá vaktavinnufólki og dagvinnufólki á viku og mánuði að teknu tilliti til sérstakra frídaga og stórhátíðardaga sem bera upp á virkan dag.

Tökum dæmi um dymbilviku. Í núverandi kerfi er vinnuskylda dagvinnufólks, í fullu starfi, í dymbilviku 24 klst. og dragast frá 40 klst. vinnuviku skírdagur og föstudagurinn langi. Vinnuskylda vaktavinnufólks, í fullu starfi, er hins vegar 40 klst. í núverandi kerfi. Eftir kerfisbreytinguna verður vinnuskylda dagvinnufólks og vaktavinnufólks í dymbilviku sú sama, eða 24 klst. 

Yfirvinna, helgidagafrí og breytingargjald (Myndband)

Vaktahvati 

Vaktahvati er nýjung og greiðist sem hlutfall mánaðarlauna vegna fjölbreytileika og fjölda vakta á launatímabili samkvæmt skiplögðum vöktum innan vinnutímaskyldu.
Til að starfsfólk fái vaktahvata þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
 1. Lágmarksfjöldi vinnuskyldustunda á hverju launatímabili utan dagvinnumarka (á 33,33%, 55%, 65% og 75% álagi) þurfa að vera að lágmarki 42 vinnuskyldustundir.
 2. Vaktir eru flokkaðar í fjórar tegundir; dagvaktir, kvöldvaktir (33,33% álag), næturvaktir á virkum dögum (65% álag) og helgarvaktir (55% og 75% álag). Uppfylla þarf a.m.k. tvær tegundir vakta. 
 3. Lágmarksfjöldi vinnuskyldustunda í hverri tegund vakta skal vera að lágmarki 15 vinnuskyldustundir.
 4. Starfsmaður þarf að mæta a.m.k. 14 sinnum eða oftar til starfa.
   

Vaktahvati (Myndband)

Innleiðing betri vinnutíma í vaktavinnu

Breytingarnar tóku, í heild sinni, gildi 1. maí 2021 eins og áður hefur verið nefnt. Mikið af fræðsluefni er til sem finna má hér. Mikil áhersla er lögð á fræðslu og þjálfun og umbótasamtal er lykillinn að farsælli innleiðingu. Þá var starfsfólki í hlutastarfi boðin hækkun á starfshlutfalli sem nemur að minnsta kosti 10-12% á undirbúningstíma innleiðingar.

Vegferðin (Myndband)

 

 

 

Myndbönd

Betri vinnutími fyrir vaktavinnufólk

Um markmiðin og almenn kynning

Betri vinnutími vaktavinnufólks

Ávinningur og tækifæri að mati starfsfólks og stjórnenda

Ávinningur betri vinnutíma fyrir starfsfólk í vaktavinnu

Nánar um ávinninginn af breytingunum

Markmið og leiðarljós betri vinnutíma í vaktavinnu

Samkomulag um útfærslu og ný nálgun í vaktavinnu

Vegferðin

Vegferðin framundan að gildistaka betri vinnutíma í vaktavinnu

Vægi vinnuskyldustunda og vaktaálag

Vaktaálag og vægi vinnuskyldustunda útskýrt

Vaktahvati

Hvað er vaktahvati?

Yfirvinna, helgidagafrí og breytingargjald

Árleg vinnuskylda útskýrð

Hvað stýrir lengd vakta og fjölda starfsfólks á hverjum tíma?

Vinnustaðir eru mismunandi og útfærslan einnig