01.05.21

Gleðilegan 1. maí og betri vinnutíma fyrir vaktavinnufólk!

Í dag ber að fagna tvöfalt, annars vegar baráttudegi verkafólks og hins vegar betri vinnutíma fyrir vaktavinnufólk. 

Stigið hefur verið eitt stærsta skref í breytingum á vinnutíma vaktavinnufólks í hálfa öld. Vinnuvika starfsfólks í vaktavinnu, í fullu starfi hjá opinberum launagreiðendum, mun styttast um 4 klst. á viku að lágmarki. Þeir sem vinna þyngstu vaktirnar geta stytt vinnutíma sinn um allt að 8 klst. á viku. Með þessum breytingum er komið til móts við þá kröfu launafólks að 80% vaktavinna jafngildi 100% í dagvinnu vegna sjónarmiða um öryggi, heilsu og jafnvægi vinnu og einkalífs.

Samfélagslegur ávinningur breytinganna er margþættur

Ávinningurinn skilar sér til starfsfólks og fjölskyldna þeirra, launagreiðenda og í auknum gæðum opinberrar þjónustu. Mestu um vert er sá samfélagslegi ávinningur sem felst í  auknu öryggi, bættri heilsu og meira jafnvægi vinnu og einkalífs, en það eru einmitt leiðarljós verkefnisins um betri vinnutíma í vaktavinnu.

Kerfisbreytingin sem felst í innleiðingu betri vinnutíma í vaktavinnu er í senn tímamótabreyting og eitt stærsta breytingarverkefni sem launafólk og launagreiðendur hafa sameinast um að fara í til margra ára. Það er mikið tilhlökkunarefni að fylgjast með þeim samfélagslega ávinningi sem betri vinnutími í vaktavinnu kemur til með að hafa í för með sér þegar fram líða stundir, bæði fyrir starfsfólk og fjölskyldur þeirra sem og á gæði opinberrar þjónustu.

Vegferðin er rétt að hefjast. Með samvinnu, samtali og samráði mun betri vinnutími lifa!

  - mynd
Fara í áskrift