01.09.21

Umbótavegferð og eftirfylgni betri vinnutíma í vaktavinnu

 
Kerfisbreytingin sem felst í innleiðingu betri vinnutíma í vaktavinnu er í senn tímamótabreyting og eitt stærsta breytingarverkefni sem launafólk og launagreiðendur hafa sameinast um að fara í til margra ára. Breytingarnar eru einnig mestu vinnutímabreytingar í a.m.k. 50 ár hér á landi.
Í ljósi þessara miklu breytinga má búast við því að enn séu einhverjir hnökrar í vinnufyrirkomulagi á hverjum vinnustað sem þarf að breyta í takt við forsendur og leiðarljós verkefnissins. 
 
Til upprifjunar eru hér leiðarljós og forsendur verkefnisins. 

Leiðarljósin eru öryggi, heilsa og jafnvægi vinnu og einkalífs.

Forsendur breytinganna eru:

  • Umbætur og umbótasamtal
  • Kostnaður vegna yfirvinnu lækki og mönnunargati verði mætt á dagvinnutíma
  • Starfsfólk í hlutastarfi á rétt á að auka við starfshlutfall sitt sem nemur styttingu vinnuvikunnar

Áskoranir

Verkefnastjórn hefur borið kennsl á nokkrar áskoranir sem einkenna marga vinnustaði. Vinnustaðir eru beðnir um að horfa til eftirfarandi þátta og bregðast við ef þörf er á:

  • Hvetja þarf til aukins starfshlutfalls þar sem enn eru hlutastörf og mönnunargat til staðar.
  • Enn er verið að ráð í störf og þjálfa nýtt starfsfólk þar sem stórir hópar starfsfólks voru í fullu starfi fyrir breytingarnar. 
  • Mikilvægt er að horfa á jafnræði í starfsmannahópi á hverju launatímabili til að koma í veg fyrir stórar sveiflur á launum milli mánaða.
  • Horfa þarf til samsetningu vakta í takt við markmið verkefnisins og virða meginreglur hvíldartímalöggjafar við skipulag vakta.
  • Horfa þarf til nokkurra mánaða áður en laun hópa eru metin m.t.t. lækkunar. Bent er á gátlista sem þarf að yfirfara.

Eftirfylgni 

Matshópur hefur það hlutverk að fylgja eftir lykilmælikvörðum sem liggja til grundavallar kerfisbreytingunum sem felast í betri vinnutíma. Matshópurinn er hópur sérfræðinga frá launagreiðendum og launafólki. Allir launagreiðendur og vinnustaðir hafa skuldbundið sig til að skila mánaðarlegum lykilmælikvörðum. Þessa dagana er vinna þeirra í fullum gangi. Frekari upplýsingar vegna þessa má finna hér.  

Umbótavegferðin er rétt hafin og þarf að halda áfram. Með samvinnu, samtali og samráði mun betri vinnutími lifa!

 
 
Umbótavegferð og eftirfylgni betri vinnutíma í vaktavinnu  - mynd
Fara í áskrift